Blóm spila mikilvægan part í jarðarförum, bæði hérlendis og erlendis. Það er venjan að þegar blóm eru valin í samúðarvendi og við önnur tilefni er notast við ákveðna blóma táknfræði sem byrjaði í Bretlandi á viktoríutímabilinu. Hefðin að sýna umhyggju í verki og gefa blóm að gjöf er þó miklu eldri. Eftirfarandi blómategundir eru oft notaðar í jarðarfarir og í samúðarvendi vegna þess að saga þeirra tengist dauðanum á einn eða annan hátt.
Krísur eru oft notaðar í samúðarvendi eða settar á leiði þeirra látnu. Þær tákna heiðarleika og hreinleika. Þær eru notaðar til þess að heiðra manneskju sem hefur lifað löngu og góðu lífi. Lífi fullu af ævintýrum. Í Asíu eru krísur settar á kistuna hjá þeim sem hafa verið svo heppnir að ná að verða gamlir og peningar eru settir með. Þannig getur sálin borgað fyrir far með bátunum yfir Sanzu ánna og komist á betri stað. Á Íslandi heitir krísa með mörgum blómum, nönnubrá. Þær eru nefndar eftir Nönnu konu baldurs úr Norrænni goðafræði. Baldur var elskaður af öllum og ekki síst af Nönnu, konunni sinni. Baldur var myrtur á hrottafenginn hátt og allir voru miður sín. Nema Loki auðvitað. Krísa með einu blómi nefnist maríubrá og er nefnd eftir Maríu jesúmóður. Ég held að flestir viti hvað gerðist fyrir Jesú þegar hann var 33 ára.
Hvítar liljur tákna sakleysi, hreinleika og endurfæðingu. Hvítar liljur eru mjög algengar í jarðarförum vegna þess að táknmynd þeirra er sú að sálin sé nú komin til baka í friðsælt og saklaust form.
Rósir tákna oft rómantík en þær geta líka táknað dauðann, blóð eða sakleysi. Sagan segir að Afródíta, gríska gyðja ástarinnar, hafi á einhverjum tímapunkti verið ástfangin af mennskum manni. Hann dó af slysförum þegar hann var úti að veiða villisvín. Þegar Afródíta fann hann liggjandi í blóði sínu varð hún miður sín og grét. Samkvæmt sögunni uxu þá rauðar rósir upp úr sárinu. Blómið sjálft táknar ástina sem hún hafði fyrir manninum og þyrnarnir tákna hversu sárt það er að missa þann sem maður elskar. Þess vegna geta rósir líka táknað blóð og dauðann.
Klæðisblóm sem á ensku kallast marigold líkist goðadrottningu. Í Mexíkó og Suður-Ameríku, yfir höfuð, er þetta blóm hinna dauðu. Blómið er aðal táknmynd Dia De Los Muertos eða Dag hinna dauðu, hátíð sem haldin er til heiðurs öllum sem eru ekki lengur á meðal okkar. Blómið er fagurgult eða appelsínugult og á að tákna allt það góða sem fólkið sem er farið yfir móðuna miklu hefur skilið eftir sig frekar en að leggja áherslu á sorgina yfir því að manneskjan hafi yfirgefið. Í Evrópu er blómið tákn um sorg og söknuð.
Orkideur tákna eilífa ást og þá hugmynd að manneskjan geti dáið en ástin á manneskjunni deyr aldrei. Þess vegna er blómið oft notað í jarðarförum en blómið táknar líka ást og umhyggju og þá ekki einungis rómantíska ást. Þess vegna er blómið líka viðeigandi við önnur tilefni.
Melasól eða poppy blóm vaxa í náttúrunni, bæði hérlendis og annars staðar. Sagan segir að í seinni heimsstyrjöldinni hafi melasólirnar vaxið af blóðugum ökrum eftir orrusturnar sem fóru þar fram. Frá seinni heimsstyrjöldinni hefur melasól þess vegna verið einskonar heiðursmerki þeirra sem hafa farist í stríði og minnir á það að hermönnunum verði aldrei gleymt. Í dag eru margir hernaðarlegir minnisvarðar til með melasól á. Hugmyndin um að nota melasól sem tákn tengt dauðanum er þó miklu eldri. Í Grikklandi til forna notaði fólk blómið á grafir vegna þess að það trúði því að blómið gæti tryggt ódauðleika sálarinnar. Leifar af slíkum blómum hafa verið fundnar í 3000 ára gömlum egypskum grafreitum.
Þrátt fyrir þennan mikla fróðleik um hvaða blómategundir eru oft notaðar í samúðarvendi þá er það sem mestu máli skiptir að sjálfsögðu það að sýna ást í verki og leyfa þeim sem syrgja að njóta fallegra blóma á erfiðum tímum sama hvaða táknmynd blómið hefur. Svo er það auðvitað besta hugmyndin að velja bara uppáhalds blóm viðtakandans. Þá skiptir ekki öllu máli þótt blómið tákni eitthvað ákveðið. Ég gaf til dæmis einu sinni ömmu minni fallegan vönd af krókdyrgju. Krókdyrgja táknar vinaslit, svik, dauða og almennan fyrirboða slæmra hluta. Plantan er nefnd eftir grískri gyðju sem stundaði það að tæla fólk til sín á eyðieyjuna sína. Þar breytti hún fólkinu ýmist í ljón, úlf eða svín sem hún seinna slátraði og át. Til að vera sanngjörn þá var ég 7 ára og hélt að blómið væri gleym-mér-ei. Ekkert illt gerðist fyrir mig né ömmu mína. Hún var jafn glöð með blómin eins og ömmur geta verði þegar þær fá afhentan tættan villiblómvönd frá barni og allir fóru sáttir heim :)