3 aðferðir til að hjálpa klifurplöntum að klifra

Klifurplöntur eru ekkert sérstaklega erfiðar í umhirðu. Láttu þær í rauninni bara vera í friði í réttum aðstæðum og þær gera það sem þær gera best, klifra!

Þannig að.. þú þarft aðallega að búa til rétt umhverfi fyrir þær svo að þær getir gert það sem þær vilja. Mesta vinnan er því í byrjun og svo gera plönturnar bara sitt. 

Það eru til margar tegundir af klifurplöntum. Bestu tegundirnar fyrir íslenskar aðstæður að okkar mati eru rifblöðkur (monsterur) og nánast allar plöntur sem eru skyldar rifblöðkum. 

Hér ætlum við að fjalla um þrjár aðferðir til að búa til góðar aðstæður fyrir klifurplöntur.

1. Reyna að hvetja þær til að klifra upp vegg heima hjá þér. Til dæmis að staðsetja plöntuna hjá vegg sem hefur fullt af myndum eða öðru veggja-dóteríi. Það hljómar framandi en við höfum séð svona gert! Við fengum eitt sinn senda mynd frá viðskiptavini.. Hún var með tíglalaga veggjaskraut inni hjá sér (eins og margir Íslendingar eru með á sólpöllum sínum út í garði). Hjá henni var þetta veggjaskraut þakið klifurplöntu. Það var orðinn þykkur gróður á þessu og hún notaði þetta til að stúka af horn í herberginu. Gæti virkað hjá mörgum!

2. Leyfa plöntunni að hanga á vegg og leyfa greinunum að hanga niður vegginn. Það er mjög flott og kemur vel út á flestum heimilum. Annars höfum við líka sett hengi/klifurplöntur í glugga og þá aðallega glugga sem eru kannski aðeins hærra uppi. Kemur oft vel út í kjallaraíbúðum þar sem gluggar eru oft hærra uppi. 

3. Koma plöntustuðning fyrir í moldina með plöntunni sem plantan gæti þá klifrað á sjálf. Stuðningurinn þarf ekki að vera flókinn, gæti verið eitthvað eins og bambus stöng eða eitthvað sem þú föndrar sjálf/ur. Jafnvel bara eitthvað jafn einfalt og grillprjónar. Þannig getur maður stjórnað miklu betur sjálfur hvernig plantan vex. Þá verður hún líka miklu viðráðanlegri. 

Þegar maður er búin að setja upp góðar aðstæður fyrir plöntuna sína þá er ekkert annað að gera en að bíða. Vökva hana þegar þarf og þá gerir plantan bara það sem hún vill   🌱 🌱

Leave a comment

This site is protected by reCAPTCHA and the Google Privacy Policy and Terms of Service apply.